Divider Background

Velkomin


Torfan blandar saman frönskum matarhefðum með norrænu ívafi. Þó svo að sígildu hefðirnar séu í fyrirúmi mætir hún nútímanum og úr því verður óvænt en klassísk matargerð.

Húsið er staðsett á Bernhöftstorfu og var byggt árið 1838. Timburgólfið og gamlir veggir geyma margar sögur frá Reykjavík.

Torfan leggur sig fram við að bjóða upp á sælkeramat og úrvalsþjónustu í sögufrægu andrúmslofti.

Saga hússins


Bernhöftstorfan er ein elsta varðveitta götumynd Reykjavíkur. Elstu húsin þar eru byggð árið 1834 en Torfan fjórum árum seinna þegar land- og bæjarfógetinn Stefán Gunnlaugsson byggði húsið.

Bernhöft bakari keypti svo húsin 1845 og var lengi eini bakarinn í hverfinu. Hér bjuggu svo sálmaskáldið Stefán Thorarensen og Hannes Hafstein.

Árið 1923 keypti KFUM og K húsið til að reisa stórhýsi en ekkert varð úr þeim áformum og því keypti ríkið það af þeim með hugmyndir um að bygga stjórnarráð, en notuðu húsið í ýmis konar starfsemi á meðan á borð við Hagstofu Íslands, Ríkisprentsmiðja Gutenbergs Bifreiðaeftirlit Ríkisins og Fasteignamat Ríkisins. Þrátt fyrir tvenn áform um niðurrif varð ekkert úr því.

Árið 1970 voru svo húsin á Bernhöftstorfu rýmd því það átti að rífa þau í þriðja sinn og reisa þar stjórnarráðshús. Áður en þetta gerðist var hins vegar hafin barátta fyrir varðveislu húsanna, en á þeim tíma hafði þrisvar sinnum eldsvoði komið upp í Torfunni. Eftir mikla baráttu uppskáru Torfusamtökin sigur og fengu að leigja húsið frá ríkinu gegn endurbyggingu og varðveislumarkmiði.

Árið 1981 opnaði svo veitingastaðurinn Torfan eftir áralanga baráttu um friðun á húsunum og var það endurbætt í sömu mynd. Húsið á því langa og stórmerkilega sögu sem er einnig saga Reykjavíkur.